Innlent

Ryksugur á mannauð landsbyggðar

Háskólarnir í Reykjavík virka eins og ryksugur á mannauðinn af landsbyggðinni, segir Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst. Hann telur að eina raunhæfa byggðastefnan til framtíðar sé að efla háskóla um landið allt. Runólfur Ágústsson sagði í ræðu sem hann flutti á aðalfundi Byggðastofnunar, sem haldinn var á Bifröst í fyrradag, að setja ætti uppbyggingu háskóla á landsbyggðinni í forgang. Því væri öfugt farið í dag og skólar á landsbyggðinni í raun sveltir vegna uppbyggingar háskólanna í Reykjavík sem menntamálayfirvöld legðu ofuráherslu á. Runólfur segir að uppbygging háskóla á landsbyggðinni sé hins vegar brýnasta byggðamál sem Íslendingar standi frammi fyrir í dag. „Háskólarnir í Reykjavík hafa alla undanfarna öld virkað eins og ryksugur á mannauð af landsbyggðinni. Þeir draga til sín ungt og hæfileikaríkt fólk, fólk sem flytur af landsbyggðinni til Reykjavíkur vegna háskólanna, flytur sitt lögheimili þangað og það lögheimili er í fæstum tilfellum flutt til baka eftir að námi lýkur,“ segir Runólfur. Hann bendir á að háskólarnir á landsbyggðinni hafi vilja, getu og kraft til að vaxa enn frekar. Til að mynda hafi Bifröst farið fram á það við menntamálaráðuneytið að fjölga nemendum næsta vetur úr 400 í 510 en að þau svör hafi fengist hjá embættismönnum að skólanum væri heimilt að fjölga nemendum um 16. Runólfur bendir enn fremur á að vegna alþjóðavæðingar og tækniframfara sé fyrirséður samdráttur í störfum í frumframleiðslu á landsbyggðinni. Það kunni að hafa skelfilegar afleiðingar í byggðamálum komi ekki ný tækifæri í staðinn í þekkingarstarfsemi og þjónustu og þar gegni háskólarnir lykilhlutverki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×