Erlent

Stríðsglæpadómstóll skoðar Darfur

Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn í Haag tilkynnti í gær að hann hygðist rannsaka ásakanir um stríðsglæpi í Darfur-héraði í Súdan. Súdönsk stjórnvöld ætla ekki að vinna með starfsmönnum dómstólsins. Í yfirlýsingu sinni í gær sögðu saksóknarar við Alþjóðastríðsglæpadómstólinn að rannsókn þeirra yrði "sjálfstæð og óháð og myndi beinast að þeim einstaklingum sem bæru ábyrgð á grimmdarverkunum sem framin hafa verið í héraðinu undanfarin misseri," Þetta verður stærsta verkefni réttarins síðan hann var settur á fót árið 2002. Síðan átök hófust í Darfur í febrúar 2003 er talið að 180.000 manns hafi týnt lífi og tvær milljónir manna hafi hrakist frá heimilum sínum. Ásakanir um illvirki skæruliðaflokka, studdum af ríkisstjórninni, komu á borð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í apríl og vísaði ráðið málinu áfram til dómsstólsins. Bandaríkin viðurkenna ekki lögsögu dómstólsins en ákváðu samt að beita ekki neitunarvaldi sínu. Súdönsk stjórnvöld hafa þegar lýst því yfir að þau ætli ekki að starfa með starfsmönnum dómsstólsins og þykir formælendum mannréttindasamtaka það til marks um að þau viti upp á sig sökina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×