Erlent

Bretar íhuga kílómetragjald

Yfirvöld í Bretlandi íhuga nú að taka upp kílómetragjald í stað olíugjalds til þess að taka á vaxandi umferðarþunga á fjölförnustu vegum landsins. Hugmyndin er sú að nota nýja gervihnattatækni til að fylgjast með bílum en sérstökum kassa yrði þá komið fyrir í bílunum sem skráði niður þær vegalengdir sem bílunum er ekið. Samkvæmt tillögunum sem Alistair Darling, samgönguráðherra Bretlands, hefur kynnt myndu breskir ökumenn greiða allt frá tveimur pensum á fáförnum vegum til 1,34 punda á hraðbrautum á háannatíma fyrir hverja ekna mílu. Darling segir að Bretar muni á næstu áratugum standa frammi fyrir svipuðum vandamálum og Bandaríkjamenn vegna umferðarþunga og því þurfi að taka ákvörðun um hvort breyta eigi kerfinu á næstu þremur eða fjórum árum, en reiknað er með að gervihnattatæknin verði tilbúin fyrir allt landið eftir 10 til 15 ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×