Erlent

Maðurinn gengur á náttúruna

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur birt gervihnattamyndir sem sýna hversu mjög maðurinn hefur breitt úr sér í náttúrunni á undanförnum áratugum. Borgarstjórar alls staðar að úr heiminum eru nú samankomnir í San Francisco til þess að ræða framtíð umhverfisins. Þeir funda daglega á fimm daga ráðstefnu til að skiptast á skoðunum um hvernig megi best gera borgir grænni sem tæpast verður með því að þétta byggð. Í skýrslu umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna segir meðal annars að borgarbúar beri mesta ábyrgð á gróðurhúsaáhrifunum en verði minnst varir við afleiðingar þeirra sem komi mest niður á afskekktum og strjálbýlum landsvæðum. Fólk er því hvatt til þess að hugsa grænt. Meðal þeirra sem þegar eru farnir að hugsa grænt er tortímandinn mikli sem nú er ríkisstjóri í Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger. Hann fullyrti á ráðstefnunni að frá og með deginum í dag verði Kalifornía í fararbroddi í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. Þótt Schwarzenegger sé eitilharður repúblikani þykir hann vera nokkuð víðsýnn ríkisstjóri og hefur sjálfur sagt að hann sé einlægur umhverfisverndarsinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×