Erlent

Grísafótbolti í Rússlandi

Grísafótbolti á vaxandi vinsældum að fagna í Rússlandi og nú eru grísalið víðsvegar um landið að æfa fyrir stórkeppni í Moskvu. Grísafótbolti er í stórum dráttum eins og venjulegur fótbolti. Það eru tvö lið og fimm grísir í hvoru liði. Sá er þó munur að það eru engin mörk og þar af leiðandi engir markmenn - eða markgrísir. Leikurinn gengur út á að liðin haldi boltanum sem lengst og ýti honum á undan sér frekar en að éta hann. Ekki er nú ástæða til þess að óttast að David Backham falli í skuggann af einhverjum þeirra fótboltakappa sem léku listir sínar í Moskvu í dag. Ekki er vitað til þess að grísabolti sé spilaður annars staðar en í Rússlandi. Hann ætti þó að geta haslað sér völl í Bretlandi þar sem áhorfendur haga sér iðulega eins og svín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×