Erlent

Sá son sinn myrtan á myndbandi

Kona í Bosníu þekkti ungan son sinn á myndbandi sem sýndi þegar Serbar myrtu sex óbreytta borgara frá borginni Srebrenitsa árið 1995. Það var fyrst sýnt síðastliðinn miðvikudag við réttarhöldin yfir Slobodan Milosevic í Haag. Á myndbandinu sjást serbneskir hermenn fara með sex óbreytta borgara frá Srebrenitsa út í sveit. Mennirnir eru með hendurnar bundnar fyrir aftan bak. Fyrst er þeim hent á jörðina og látnir liggja þar nokkra stund. Svo er farið með þá eitthvað lengra og þeir eru skotnir með hríðskotarifflum, einn af öðrum. Serbarnir hlæja og gera að gamni sínu meðan á þessu stendur. Myndbandið var svo sýnt í sjónvarpinu í Bosníu og þar þekkti kona son sinn meðal þeirra sem voru myrtir. Morðingjarnir voru auðþekktir á myndunum og hafa nokkrir þeirra nú verið handteknir. Fleiri er leitað. Talið er að átta þúsund óbreyttir borgarar hafi verið myrtir í Srebrenitsa. Þeir tveir menn sem bera mesta ábyrgð á morðunum, Radovan Karadic og hershöfðinginn Ratko Mladic, ganga enn lausir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×