Erlent

Alnæmisfaraldur ekki á undanhaldi

Meira en 39 milljónir manna um heim allan eru smitaðar með HIV-veirunni og létust meira en 3 milljónir úr alnæmi á síðasta ári. Fjölgun smita hefur mest orðið í Austur-Asíu, austurhluta Evrópu og í Mið-Asíu. Kofi Annan aðalritari Sameinuðu þjóðanna ávarpaði ráðstefnu á vegum SÞ sem haldin var í New York fyrir helgi og var helguð alnæmisvandanum. Sagði hann á fundinum að stóraukið fjármagn þyrfti til að ná þúsaldarmarkmiðum SÞ sem miða að því að ná tökum á alheimsfaraldrinum fyrir árið 2015. Tók hann einnig fram í ræðu sinni að einungis ef næðist að yfirstíga þessa hindrun væri hægt að byggja upp mannúð, heilsu og jafnrétti í heiminum. Kofi Annan lofaði Brasilíumenn sérstaklega fyrir að hafa staðið sig sérstaklega vel í baráttunni við alnæmi og minntist einnig sérstaklega á Tæland og Kambódíu sem bæði hafa staðið sig mjög vel í að byggja upp herferð gegn alnæmi. Margar þjóðir eiga þó enn eftir að gera aðgerðaáætlun. Einungis 12% af þeim íbúum þróunarlanda sem eru smitaðir fá þau lyf sem til eru til að halda sjúkdómnum niðri og fjölmargir þeirra smituðu vita ekki einu sinni að sjúkdómurinn sé til, hvað þá að þeir sjálfir séu smitaðir. Eins og staðan er í dag eru um 25 milljónir smitaðar af HIV-veirunni í Afríku og er því spáð að á næstu 20 árum smitist 90 milljónir Afríkubúa til viðbótar sem er um tíund af heildaríbúafjölda álfunnar. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 200 milljarða bandaríkjadala þurfi til að hefta útbreiðsluna en um 8 milljörðum dala er nú varið árlega í málaflokkinn. Undanfarin ár hefur smitum fjölgað hlutfallslega mest í fátækum löndum í Austur-Asíu, asturhluta Evrópu og í Mið-Asíu þar sem yfirvöld virðast hafa sofnað algjörlega á verðinum. Annað sem veldur áhyggjum er það að íbúar vesturlanda virðast sumir hverjir halda að vandamálið sé ekki til staðar þar. Bandarískir HIV-smitaðir unglingar virðast til að mynda taka mun meiri áhættur í kynlífi nú en áður auk þess sem margir taka ekki lyf samkvæmt læknisráði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×