Erlent

Móðir myrti börnin sín

Mikill óhugnaður ríkir í Austurríki eftir að lögreglan í Graz skýrði frá því að hún hefði fundið lík fjögurra kornabarna. Móðir þeirra hefur játað að hafa banað þeim í örvæntingu sinni vegna fjárhagsstöðu. Fyrstu tvö líkin fundust á mánudaginn í frystikistu í húsinu þar sem konan býr en nágranni hennar ætlaði að ná sér í rjómaís. Lögregla var þegar kölluð á vettvang og fann tvö lík til viðbótar, eitt í málningarfötu sem fyllt hafði verið með steypu og grafin í jörð og annað sem grafið var undir rusli í skúr í garðinum. Móðir barnanna hefur þegar játað að hafa ráðið þeim bana fljótlega eftir fæðingu þeirra. Hún ber því við að hafa fyllst örvæntingu vegna bágrar fjárhagsstöðu en jafnframt óttaðist hún að sambýlismaður sinn mundi yfirgefa sig vegna barnanna. Grunur leikur á að fyrsta drápið hafi átt sér stað fyrir þremur árum. Konan starfar sem endurskoðandi en nágrannar hennar lýsa henni sem dugnaðarforki sem hélt heimili þeirra ávallt fallegu. Skötuhjúin hafa þegar verið sett í gæsluvarðhald á meðan rannsókn málsins fer fram. Austurríska þjóðin er slegin miklum óhug vegna málsins en morð og ofbeldisglæpir eru fremur fátíð í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×