Erlent

Sjálfsmorðsárás í Kandahar

Sjálfsmorðssprenging varð að minnsta kosti tuttugu manns að bana við mosku í borginni Kandahar í suðurhluta Afganistans í gær. Sprengingin varð þegar verið var að bera hófsaman múslimaklerk til grafar. Auk þeirra sem létust særðust rúmlega fjörutíu manns. Gul Agha Sherzai, borgarstjóri Kandahar, greindi frá því að skjöl hefðu fundist á líki tilræðismannsins sem sönnuðu tengsl hans við hryðjuverkasamtök Osama Bin Laden, al-Kaída. Róstur hafa mjög aukist í Afganistan undanfarna daga. Launmorð, bardagar við uppreisnarmenn og mannrán eru nánast daglegt brauð þar um þessar mundir. Margt í aðferðafræði uppreisnarmannana bendir til þess að þeir hafi lært af herbrögðum starfsbræðra sinna í Írak. Uppreisnarherirnir hafa sjálfir orðið fyrir miklu mannfalli en bandarískir og afganskir embættismenn segja að minnsta kosti tvö hundruð skæruliða hafa fallið. Nær fjögur ár eru síðan Bandaríkjaher réðist inn í landið en hægt hefur gengið að koma stöðugleika þar á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×