Erlent

Leysigeislar umhverfis Washington

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur umkringt Washington-borg með leysigeislum til þess að hindra að flugvélar fljúgi án leyfis yfir höfuðborgina. Mikið uppnám varð í Washington í síðustu viku þegar einkaflugvél villtist inn yfir borgina og var aðeins um fimm kílómetra frá Hvíta húsinu. Þúsundum manna var fyrirskipað að yfirgefa opinberar byggingar eins og þinghúsið, ráðuneyti og Hvíta húsið sjálft. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur nú komið fyrir búnaði umhverfis borgina sem blikkar grænum og rauðum leysigeislum að flugvélum sem koma inn yfir bannsvæði án sérstakrar heimildar. Þegar flugmaður sér þessi ljós er eins gott fyrir hann að beygja þegar á braut og kalla upp flugumferðarstjórnina, annars verður hann skotinn niður. Orrustuþotur eru í viðbragðsstöðu á flugvöllum umhverfis Washington. Þær eru ræstar um leið og óviðkomandi flugvél nálgast og þær eru ekki endilega stöðvaðar þótt vélin beygi frá. Ed Daniel ofursti segir að þótt flugmaður tali við flugturn og snúi burt dragi þoturnar sig ekki í hlé. Þær fari á enda flugbrautarinnar en ef flugmaðurinn fari eftir leiðbeiningum flugmálastjórnar haldi herþoturnar sig hugsanlega á jörðu niðri. Auk orrustuflugvélanna eru á þökum opinberra bygginga menn með handbærar loftvarnaflaugar til þess að skjóta niður óþekktar flugvélar ef allt annað þrýtur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×