Erlent

Kosningar boðaðar í Póllandi

Aleksander Kwasniewski, forseti Póllands, tilkynnti í gær að þingkosningar færu fram í landinu hinn 25. september næstkomandi. Forsetinn tilkynnti um þetta á sameiginlegum blaðamannafundi með Wlodzimierz Cimoszewicz, forseta pólska þingsins, í Varsjá. Kwasniewski greindi einnig frá því að tveimur vikum síðar, hinn 9. október, yrðu haldnar forsetakosningar. Öðru fimm ára kjörtímabili Kwasniewskis lýkur í desember og samkvæmt stjórnarskrá er honum ekki heimilt að bjóða sig fram í þriðja sinn. Marek Belka, sem farið hefur fyrir minnihlutastjórn Lýðræðislega vinstribandalagsins, arftakaflokks pólska kommúnistaflokksins, frá því í maí í fyrra, vildi að þing yrði strax rofið og þingkosningum flýtt. Sú tillaga hans var hins vegar felld og forsetinn gerði honum að sitja áfram uns kosningar færu fram. Belka hefur sjálfur boðað að hann muni ganga til liðs við annan flokk um leið og hann losni undan embættisskyldum sem forsætisráðherra. Tveir flokkar hægra megin við miðju njóta mests fylgis í Póllandi um þessar mundir, ef marka má skoðanakannanir, með um 20 prósent hvor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×