Erlent

Verst ásökunum þingnefndar

Í skýrslu sem rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings birti um meinta spillingu í tengslum við hina svonefndu olíu-fyrir-mat-áætlun Sameinuðu þjóðanna í Írak, eru sakir bornar á franska, breska og rússneska stjórnmálamenn, en einnig bent á að bandarísk fyrirtæki voru flækt í hin vafasömu viðskipti við ríkisstjórn Saddams Hussein. Í skýrslunni, sem er sú þriðja um þetta efni sem nefndin hefur látið frá sér fara síðustu daga, er fullyrt að bandarísk stjórnvöld hafi látið sem þau sæju ekki þegar bandaríska olíufyrirtækið Bayoil keypti hráolíu frá Írak, þvert á viðskiptabannið, og seldi hana áfram til olíuhreinsistöðva í Bandaríkjunum. Að því er segir í skýrslunni hefði bandarískum stjórnvöldum - með aðildinni að öryggisráði SÞ - verið í lófa lagið að stöðva þessi viðskipti sem gerðu Saddam kleift að raka til sín milljörðum dala, ekki síst með olíusmygli til Jórdaníu, Tyrklands, Sýrlands og víðar. Breski þingmaðurinn George Galloway, sem í skýrslunni er sakaður um að þiggja mútur úr hendi Saddams í formi mjög hagstæðra kaupréttarsamninga að íraskri olíu, kom fyrir þingnefndina í gær og vísaði ásökununum með öllu á bug. Galloway sakaði þingnefndarformanninn, repúblikanann Norm Coleman, um vísvitandi rógsherferð í sinn garð. "Ég er ekki og hef aldrei verið olíusölumaður, né hefur neinn á mínum vegum verið það," sagði Galloway. "Ég var andstæðingur Saddams Hussein þegar ríkisstjórnir og viðskiptajöfrar Bretlands og Bandaríkjanna seldu honum byssur og gas," lýsti hann yfir. Galloway, sem áður var þingmaður Verkamannaflokksins en er nú svarinn andstæðingur Tonys Blair, náði kjöri í neðri deild breska þingsins í kosningunum á dögunum sem frambjóðandi samtaka sem berjast gegn þátttöku Bretlands í hernaðinum í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×