Erlent

Réttað yfir Kulayev

Réttarhöld hófust í gær yfir Nur-Pashi Kulayev en hann var eini tilræðismaðurinn sem komst lífs af í umsátrinu um barnaskólann í Beslan síðasta haust. Dómssalurinn í Vladikavkaz í Norður-Ossetíu var þéttskipaður þegar málflutningur hófst í þessu óhugnanlega máli. Eftirlifendur harmleiksins voru áberandi í salnum og voru margir áhorfendanna í sorgarklæðum. Kulayev sýndi engin svipbrigði þegar saksóknarinn las upp langan lista yfir ákæruatriðin og fórnarlömb þessa skelfilega atburðar. Tsjetsjenskir uppreisnarmenn tóku 1.200 gísla í barnaskóla í bænum Beslan í Norður-Ossetíu og héldu þeim föngnum dagana 1.-3. september síðastliðinn. Þegar hermenn réðust til inngöngu sprengdu ódæðismennirnir sprengjur sínar og þegar upp var staðið lágu 330 manns í valnum, helmingurinn börn. "Allt sem lesið var upp í dag sáum við gerast með eigin augum," sagði Lyudmila Dzegoyeva, einn gíslanna, við blaðamenn í gær. Hún sagði hins vegar að með réttarhöldunum yfir Kulayev væri athyglinni beint frá ábyrgð stjórnvalda á málinu því þeim yfirsást gjörsamlega í hvað stefndi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×