Erlent

Áfram neyðarástand í Írak

Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra Íraks, lýsti í dag yfir áframhaldandi neyðarástandi í landinu í mánuð til viðbótar. Mjög róstusamt hefur verið í landinu að undanförnu og fjölmargar sjálfsmorðsárásir hafa verið gerðar á síðustu tveimur vikum, en alls hafa um 400 manns fallið í þeim. Þegar neyðarástand ríkir getur ríkisstjórnin sett á útgöngubann, lokað landamærum og flugvöllum og handtekið menn og haldið þeim án þess að þeir séu dregnir fyrir dómara í kjölfarið. Neyðarástandi var fyrst lýst yfir í landinu skömmu fyrir árás bandaríska hersins á Fallujah sem þá var í höndum uppreisnarmanna. Í dag hafa borist fréttir af frekari árásum og mannfalli í landinum. Þrír Írakar, tveir af þeim hermenn, létust í sjálfsmorðsbílsprengjuárás á írakskan herbíl í bænum Bakúba og fimm særðust. Þá sprakk sprengja í vegarkantinum á hinum hættulega vegi til Bagdad-flugvallar en engar fregnir hafa borist af særðum eða látnum þar. Þá lést lögreglumaður og þrír særðust þegar byssumenn hófu skothríð á hóp lögreglumanna í höfuðborginni Bagdad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×