Innlent

Mærir Íslendingasögur í bók

Hinn heimskunni tékknesk-franski rithöfundur Milan Kundera fer fögrum orðum um íslenska sagnaarfinn í bók sem nýverið kom út í Frakklandi. Bókin sem heitir Tjaldið er safn óbirtra ritgerða skáldsins. "Hann fjallar þarna um skáldsöguna, veltir fyrir sér hlutverki hennar í samtímanum og sömuleiðis evrópska menningararfinum. Og það er í því samhengi sem sagnaarfur Íslendinga kemur við sögu", segir Friðrik Rafnsson sem þýtt hefur mörg verk Kundera á íslensku. Á einum stað í bókinni segir: "Mér verður hugsað til Íslands. Á 13. og 14. öld urðu þar til fagurbókmenntir upp á mörg þúsund blaðsíður: Íslendingasögurnar. Hvorki Frakkar né Englendingar sköpuðu slík lausamálsverk á eigin þjóðtungum á þessum tíma! Vinsamlegast hugsið þetta allt til enda: fyrsti mikli lausamálsfjársjóðurinn í Evrópu varð til í minnsta landi álfunnar, landi sem jafnvel enn þann dag í dag telur innan við þrjú hundruð þúsund íbúa". Tjaldið hefur verið í efstu sætum metsölulista í Frakklandi undanfarnar vikur en Friðrik Rafnsson gerir ekki ráð fyrir að hún verði þýdd á íslensku fyrr en á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×