Erlent

Eystrasaltsríki hunsuðu hátíðahöld

Endaloka heimsstyrjaldarinnar síðari var í dag minnst í Moskvu með hersýningu og hátíðarhöldum. Ekki eru allir á eitt sáttir og Eystrasaltslöndin hunsuðu hátíðarhöldin þar sem endalok Hitlers og heimstyrjaldarinnar marka líka upphafið að hernámi Sovétríkjanna.. Langflestir eða 27 milljónir af þeim 40 milljónum sem létu lífið í heimsstyrjöldinni síðari voru Sovétmenn. Þeirra var minnst í morgun með hersýningu á Rauða torginu í Moskvu að viðstöddum um 50 þjóðarleiðtogum víðs vegar að úr heiminum, þar á meðal Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sem að undanförnu hefur að nokkru fallið úr náðinni hjá Vesturlöndum, sérstaklega vegna Tsjetsjeníu og aukinna einræðistilburða sinna, notaði tækifærið síðdegis og sat á fundum með hverjum forsetanum og forsætisráðherranum á fætur öðrum og ræddi mál eins og baráttuna gegn hryðjuverkum, Norður-Kóreu og Miðausturlönd. Það vakti athygli að vel fór á með Pútín og Bush Bandaríkjaforseta á hátíðarhöldunum en vaxandi væringar hafa verið á milli landanna tveggja. Bush Bandaríkjaforseti fór nú síðdegis í opinbera heimsókn til Georgíu en það hefur að öllum líkindum ekki vakið mikla hrifningu Pútíns sem stendur í miklum deildum við yfirvöld þar eftir stjórnarskiptin, sérstaklega vegna þess að Georgíumenn vilja loka tveimur rússneskum herstöðvum. Þann skugga bar líka á að stjórnvöld í Eistlandi og Litháen mættu ekki á hátíðarhöldin í Moskvu vegna þess að það var einmitt við lok heimsstyrjaldarinnar síðari sem Sovétmenn hernámu Eystrasaltslöndin. Þeir eru því nokkrir sem spyrja, hvort við þessi hátíðarhöld á Rauða torginu í dag hafi átt að fagna endalokum Hitlers eða upphafinu að 40 ára yfirráðum Sovétríkjanna í Austur-Evrópu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×