Erlent

Komu í veg fyrir rigningu á athöfn

Fallinna Sovétmanna úr heimsstyrjöldinni síðari er minnst á Rauða torginu í Moskvu í dag. Rússnesk yfirvöld beittu óhefðbundnum aðferðum til að koma í veg fyrir að það rigndi á alla þjóðarleiðtogana sem voru þar í sínu fínasta pússi. Af þeim 40 milljónum manna sem létu lífið í seinni heimsstyrjöldinni, voru 27 frá Sovétríkjunum fyrrverandi. Um fimmtíu þjóðarleiðtogar hvaðanæva að úr heiminum eru komnir til Moskvu til votta þessum fórnarlömbum stríðsins virðingu sína og taka þátt í heljarmikilli minningarathöfn sem hófst á Rauða torginu í morgun. Segja má að þessi athöfn í Moskvu sé nokkurs konar lokahnykkur á hátíðarhöldum sem verið hafa víðs vegar um Evrópu um helgina til að minnast þess að 60 ár eru liðin frá lokum stríðsins. Varnarmálaráðuneyti Rússa lagði heiður sinn að veði í síðustu viku þegar það fullyrti að það myndi koma í veg fyrir rigningu á þessum degi. Ellefu herþotur voru sendar á loft í morgun til að spreia efnum á þungbúin rigningarský sem voru að hrannast yfir borgina. Fyrst í morgun virtist sem einhver í ráðuneytinu yrði látin fjúka því það hellirigndi enn þegar fyrirmennin og þjóðarleiðtogarnir, eins og Chirac Frakklandsforseti, Schröder, kanslari Þýskalands, og Hu Jintao, forseti Kína, fóru að týnast á svæðið. Heiðri rússneska hersins var þó bjargað fyrir horn því í þann mund sem George Bush Bandaríkjaforseti og kona hans Laura gengu inn á torgið stytti upp og sólin byrjaði að skína. Stjórnvöld í Eistlandi og Litháen mættu ekki á þessa athöfn til að mótmæla hernámi Eystrasaltsríkjanna. Þau hafa krafist þess að Rússar biðjist afsökunar á hernáminu en Pútín segir að það sé óþarfi. Það vakti athygli að vel virtist fara á með Pútín og Bush í morgun en þeir hafa verið þó nokkuð harðorðir og gagnrýnir í garð hvor annars að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×