Innlent

Valdafíknin enn til staðar

Biskup Íslands boðaði til samkirkjulegrar bænastundar í Hallgrímskirkju í dag. Fulltrúar rómversk-kaþólskra, rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og prestur af Keflavíkurflugvelli tóku þátt í athöfninni auk rabbía. Þá flutti utanríkisráðherra ávarp. Karl Sigurbjörnsson biskup sagði í ávarpi sínu að skefjalaus valdafíkn, hernaðarhyggja og kynþáttahatur hafi leitt Evrópu og heimsbyggðina alla út í hildarleik heimsstyrjaldarinnar. „Þau reginöfl leika enn lausum hala í mannlífinu og mega aldrei ná undirtökunum - afvegaleiða, blinda og blekkja - einstaklinga og þjóðir og ginna inn í björg sín,“ sagði biskup. Davíð Oddsson utanríkisráðherra minntist þeirra Íslendinga sem lögðu sitt af mörkum í heimsstyrjöldinni. Hann sagði þjóðina ekki hafa staðið hjá sem ósnortnir áhorfendur þótt við höfum haldið framan af að yfirlýsingar okkar um ævarandi hlutleysi hefðu raunverulegt gildi. „Við felldum engan mann í styrjöldinni svo vitað sé en hún tók samt sinn toll hér og þess er rétt að minnast með söknuði og þökk til þeirra sem stóðu sig svo vel við þær aðstæður,“ sagði utanríkisráðherra Fulltrúi íslenskra sjómanna sem sigldu í skipalestunum í heimsstyrjöldinni las ritningarlestur. Undir lokin tónaði svo rabbíi hebreska bæn, „Kaddish“, til minningar um þau sem létu lífið í Helförinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×