Lífið

Woody Allen á kvikmyndahátíðinni

Iceland International Film festival 2005 hefst á fimmtudaginn og það eru enn að bætast spennandi titlar á dagskrána en nýjasta viðbótin er sjálfur meistari Woody Allen en nýjasta myndin hans, Melinda And Melinda, verður forsýnd á hátíðinni. Gagnrýnendum ber saman um að Allen sé í toppformi í myndinni, sem mun vera sú besta sem hann hefur sent frá sér um árabil. Myndin er dramatísk þótt glensið sé aldrei langt undan, enda er yfirskrift hennar sú að lífið geti verið gleðileikur eða harmleikur, það fari allt eftir því hvernig litið er á það. Allen teflir að vanda fram breiðum hópi leikara með gamanleikarann Will Ferrell (Elf, Anchorman) í broddi fylkingar. Ferrell er með ólíkindum vinsæll um þessar mundir og eftirvæntingin eftir Melinda And Melinda er umtalsverð. Sjálfur segist Allen þó í nýlegu viðtali við Empire gera ráð fyrir því að bæði áhorfendur og kvikmyndaiðnaðurinn farri að missa áhugann á honum og verkum hans. Og það sem meira er: honum er nákvæmlega sama. Melinda And Melinda verður sýnd tvisvar á IIFF í  Regnboganum þann 18. apríl klukkan 20 og 20. apríl klukkan 22. Auk myndar Allens hafa þrjár splunkunýjar myndir frá Noregi bæst í glæsilegan hóp mynda á hátíðinni. Þetta eru myndirnar Uno, eftir Aksel Hennie og Jon Andreas Andersen, Min Misunderlige Frisör, eftir Annette Sjursen, og Monstertorsdag eftir Arild Østin Ommundsen. Myndirnar eru mjög ólíkar innbyrðis en eiga það allar sameiginlegt að hafa vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðum undanfarið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.