Lífið

Hjálmar á ferð og flugi

Ekki er svo langt síðan hljómsveitin Hjálmar sneri aftur til Íslands eftir að hafa spilað á tónleikum í Stokkhólmi. Þeir stoppa ekki stutt því þeir hyggjast leggja land undir fót á ný en halda þó nokkra tónleika fyrir okkur hér heima fyrst. "Við spilum á Nasa í kvöld ásamt hljómsveit svo í allt verðum við fjórtán manna band. Við spilum svo á afmælistónleikum Megasar á fimmtudaginn í næstu viku og Grandrokki á föstudaginn. Eftir það höldum við erlendis og spilum á tónleikum í Malmö. Þaðan förum við til Helsinki í finnlandi og svo til Rússlands þar sem við spilum á Nordic Music Festival. Þar kemur fram ein hljómsveit frá hverju Norðurlandi. Svo á leiðinni heim stoppum við í Stokkhólmi og spilum þar," segir Guðmundur Kristinn Jónsson. Þegar hann er inntur eftir næstu plötu þá segir hann Hjálma ekkert vera að flýta sér í þeim málum. "Það er enginn að ýta á okkur og okkur liggur ekkert á. Við erum reyndar farnir að semja fullt og flest bendir til þess að hljómurinn verði að einhverju leiti ólíkur fyrri plötunni." Nýr trommuleikari leikur nú með Hjálmum og ber sá nafnið Nisse Törnqvist. Auk hans hefur einn meðlimur bæst í bandið en sá nefnist Michael Svenson og spilar á Clavinett og Wurlitzer. Báðir eru þeir svíar og fyrir var einn svíi í bandinu. Það má því segja að hljómsveitin Hjálmar sé einskonar sænskíslenskur kokteill sem grúvar vel. Aðgangseyrir á tónleikana á Nasa í kvöld er 500 krónur og húsið opnar klukkan ellefu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.