Sport

Tveir leikir á Englandi í kvöld

Tveir leikir fara fram í ensku úrvaldsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Á The Valley taka heimamenn í Charlton á móti Tottenham en þetta eru liðin í 8. og 9. sæti en aðeins eitt stig skilur liðin af, Charlton hefur 40 stig en Tottenham 39. Liðið sem sigrar í kvöld mun komast í 7. sætið, Charlton á reyndar möguleika á að ná Bolton að stigum í 6. sætinu, en sjötta sætið gæti gefið sæti í UEFA keppninni að ári þar sem möguleiki er á að bæði Arsenal og Man Utd komist í úrslitaleik FA bikarkeppninnar, en sigurliðið þar fær keppnisrétt í UEFA keppninni en þar sem bæði Man Utd og Arsenal verða í meistaradeildinni myndi UEFA sætið færast yfir á það lið sem endar í sjötta sæti í deildinni. Það er því að miklu að keppa hjá þessum liðum en þátttaka í Evrópukeppni getur gefið vel í aðra hönd. Hinn leikurinn í kvöld er ekki síður mikilvægur, en þar mætast Liverpool og Blackburn á Anfield. Blackburn siglir sem stendur lygnan sjá í deildinni en Liverpool er í mikilli keppni um Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð. Þó liðið sé í dag átta stigum á eftir Everton er staðan ekki svo slæm. Liðið á þennan leik gegn Blackburn í kvöld til góða og á svo leik gegn Everton, á Anfield,  um helgina. Vinni Liverpool þessa tvo leiki verður bilið ekki nema tvö stig og átta leikir eftir. Ekki er þó ólíklegt að stuðningsmenn Liverpool hrylli við tilhugsunina eina saman að mæta Blackburn, en í tveimur síðustu leikjum Liverpool gegn Blackburn hafa hvorki fleiri né færri en þrír leikmenn þeirra rauðu fótbrotnað. Í fyrra brotnuðu þeir Jamie Carragher og Milan Baros eftir tæklingar frá Lucas Neill og Marcus Babbel, og voru lengi frá. Í haust fótbrotnaði svo Djibril Cissé illa í leik á Ewood Park og spilar ekki aftur fyrr en á næsta tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×