Erlent

Útilokar ekki viljaverk

Ítalska blaðakonan Giuliana Sgrena sem látin var laus úr höndum mannræningja í Írak um helgina útilokar ekki að bandarískar hersveitir hafi skotið viljandi á bíl sinn með þeim afleiðingum að ítalskur leyniþjónustumaður beið bana. Ítalina og bandarísku hermennina greinir verulega á um tildrög skothríðarinnar. Gleði ítölsku blaðakonunnar Giuliana Sgrena yfir að hafa verið látin laus úr mánaðarlangri prísund sinni snerist upp í skelfingu á föstudaginn þegar bandarískir hermenn hófu skothríð á bifreið hennar og ítalskra leyniþjónustumanna á leið á flugvöllinn í Bagdad. Nicola Calipari leyniþjónustumaður dó í árásinni þegar hann reyndi að skýla blaðakonunni. Sgrena sneri aftur til Ítalíu á laugardaginn og í gær birtist grein eftir hana í dagblaðinu Il Manifesto um reynslu sína. Þar hafnar hún því alfarið að bílnum hafi verið ekið hratt og ekki sinnt stöðvunarmerkjum eins og bandarísk yfirvöld hafa haldið fram. Þegar skothríðin hófst rifjuðust upp fyrir henni orð mannræningjanna um að fara varlega "því Bandaríkjamenn vilja ekki að þú snúir aftur." Í viðtali við Sky Italia TV í gær útilokaði hún ekki að árásin hefði verið viljandi. "Allir vita að Bandaríkjamenn eru mótfallnir samningaviðræðum við gíslatökumenn og því sé ég ekki af hverju ég ætti að útiloka að ég hafi verið skotmark hermannanna." Ítalskir leyniþjónustumenn höfðu síðustu vikur átt í viðræðum við mannræningjana sem lyktuðu með frelsun Sgrena en ekki er vitað hvort lausnargjald hafi verið greitt. Málið er þegar farið að draga pólitískan dilk á eftir sér. Mikil andstaða hefur verið í Ítalíu við stuðning ríkisstjórnar Berlusconi og þrýstingur mun eflaust vaxa um að 3.000 manna herlið Ítala verði kallað heim. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagðist í samtali við Antonio Martino, ítalskan starfsbróður sinn, harma atvikið mjög og lofaði að það yrði rannsakað til hlítar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×