Innlent

Líst illa á legu hálendisvegar

"Ég held að það sé alveg ljóst að slíkur vegur með tilheyrandi umferð og þungaflutningum færi aldrei gegnum Þingvelli," segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra um þá hugmynd að leggja nýjan hálendisveg milli Akureyrar og Reykjavíkur. Slíkur vegur mun stytta vegalengdina milli höfuðstaðanna um 80 kílómetra en aðeins ef farið er gegnum Þingvelli. Hugmyndin um hálendisveg af þessu tagi er ekki ný en með vaxandi áhuga norðan heiða hefur málið komist á rekspöl og stutt er síðan stofnað var einkahlutafélagið Norðurvegur sem hefur það markmið að láta fara fram frumathuganir á hagkvæmni og kostnaði við lagninguna. Nokkrir stórir aðilar koma að verkefninu og hefur Andri Teitsson framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga, eins stærsta hluthafa félagsins, látið hafa eftir sér að slíkur vegur sé nauðsyn eigi Akureyri að mynda almennilegt mótvægi við höfuðborgarsvæðið í framtíðinni. Samgönguráðherra segir vænlegra að sínu viti að reyna að stytta núverandi þjóðveg en leggja nýjan sem á kafla myndi liggja hátt í 800 metra hæð. Ein meginröksemdin fyrir Norðurvegi er sá tímasparnaður sem næðist en tæplega klukkustundar stytting yrði milli Reykjavíkur og Akureyrar ef af yrði. Það er þó háð því að leyfi fáist til að fara um Þingvelli en samgönguráðherra er ekki sá eini sem líst illa á þá tilhögun. Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og formaður Þingvallanefndar segir málið ekki hafa verið kynnt nefndinni og hún því enga afstöðu tekið en hann bendir á að Þingvellir séu friðlýstur helgistaður og þjóðgarður en ekki vegarstæði. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, formaður Landverndar, segir sömuleiðis að samtökin hafi ekki ályktað vegna þessara hugmynda um hálendisveg en segir skjóta skökku við að ætla að byggja upp hraðbraut gegnum þjóðarperluna. "Það er á skjön við þær hugmyndir að Þingvellir eigi að vera griðastaður og verndaður sem slíkur og mér dettur í hug að ef þetta verður raunin hafi umsóknin um að komast á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna verið byggð á röngum forsendum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×