Sport

Prutton biðst afsökunar

Búist er við að David Prutton, leikmaður Southampton, hljóti sjö leikja bann er mál hans verður tekið fyrir hjá enska knattspyrnusambandinu. Prutton hefur viðurkennt að hafa sýnt óíþróttalega framkomu í leik gegn Arsenal þegar honum var vísað ef leikvelli eftir gróft brot á Robert Pires. Prutton láðist að yfirgefa völlinn með sæmd og gerði sér lítið fyrir og hrinti dómara leiksins, Alan Wiley. Þá á Prutton einnig að hafa notað óviðeigandi orðbragð meðan á æsingnum stóð. "David gerði mistök og veit af því. Ég ætla ekki að réttlæta gjörðir hans. Hann missti sig og veit upp á sig skömmina," sagði Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Southampton. Prutton baðst opinberlega afsökunar á hegðun sinni. "Þetta er leiðinlegt. Ég bið línuvörðinn og dómarann fyrirgefningar," sagði Prutton. "Mér þykir líka leiðinlegt hvernig fór fyrir fætinum á Pires og biðst afsökunar á því líka. Mig langar að biðja alla sem sáu þetta afsökunar, sérstaklega unga fólkið." Þess má geta að Paolo di Canio fékk sjö leikja bann fyrir að hrinda dómara í leik Sheffield Wednesday og Arsenal árið 1998 og má því búast við álíka banni á hendur Prutton.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×