Sport

Keflavík deildarmeistari

Keflvíkingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í körfuknattleik karla í gærkvöld, þegar þeir lögðu granna sína í Njarðvík, 94-82.  Leikurinn fór fram í Keflavík og var sigur heimamanna nokkuð sannfærandi, en þeir tryggðu sér með sigrinum heimavallarréttinn í úrslitakeppninni. Það voru þeir Anthony Glover og Magnús Gunnarsson sem voru atkvæðamestir í liði heimamanna.  Glover skoraði 35 stig, flest í fyrri hálfleik og hirti 10 fráköst.  Magnús reyndist Njarðvíkingum banabitinn í síðari hálfleik, en hann skoraði 26 stig í leiknum, þar af 8 þriggja stiga körfur úr 11 tilraunum. Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sigurinn og sagði það sætt að landa efsta sætinu í leik gegn erkifjendunum.  "Jú, því er ekki að neita.  Við höfum lent í nokkrum svona leikjum í vetur, eins og í bikarnum þar sem við töpuðum einmitt fyrir Njarðvík.  Það var kominn tími til að við spiluðum almennilega", sagði Sigurður, sem sagði lið sitt ætla að spara yfirlýsingarnar fyrir úrslitakeppnina í ár. Í liði Njarðvíkinga var Friðrik Stefánsson atkvæðamestur með 15 stig og 10 fráköst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×