Sport

Enn kafnar Webber

Það leit allt út fyrir að framherjinn Chris Webber myndi byrja vel með nýja liði sínu, Philadelphia 76ers, þegar gömlu félagar Webber í Sacramento Kings voru í heimsókn í Philadelphia í NBA-körfuboltanum í fyrrinótt. Sixers náði fljótlega yfirhöndinni í leiknum og þegað aðeins þrjár og hálf mínúta var liðin var staðan orðin 11-2, Sixers í vil. Webber byrjaði vel og skoraði tvær góðar körfur með skotum utan að velli á kaflanum. Kings var ekki af baki dottið, minnkaði muninn og staðan í leikhléi var 50-47 fyrir Sixers. Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en gestirnir náðu góðri forystu á lokamínútu leiksins en lokamínúturnar voru æsispennandi. Allen Iverson, leikmaður Sixers, fékk vítaskot þegar 3,4 sekúndur voru eftir af leiknum í stöðunni 101-98. Hann hitti úr fyrra skotinu en brenndi viljandi úr því síðara. Webber náði frákastinu og fékk kjörið tækifæri til að jafna leikinn en misnotaði skot sitt og í baráttunni um frákastið rann leiktíminn út og sigur Kings í höfn. Þar með klikkaði Webber á úrslitastundu, eitthvað sem hann var ítrekað gagnrýndur fyrir á árum sínum hjá Sacramento Kings. Hann skoraði engu að síður 16 stig og tók 11 fráköst í leiknum en stigahæstur á vellinum var Allen Iverson með 27 stig, 14 stoðsendingar og 6 fráköst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×