Innlent

Alvarleg undirboð á vinnumarkaði

Útlendingum hefur fjölgað mikið á vinnumarkaði á skömmum tíma og í fjölmörgum tilfellum eru þeir notaðir til félagslegra undirboða, annaðhvort opinberlega eða í gegnum svarta atvinnustarfsemi. Fréttablaðið hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að varlega áætlað séu 750 erlendir starfsmenn í iðnaðarmannastörfum á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins um 10 prósent þeirra séu á launaskrá íslenskra fyrirtækja. Hinir séu í ráðningarsambandi við starfsmannaleigur eða starfa svart. Talið er að 250-300 starfsmenn séu á svörtum markaði í byggingariðnaði. Ekki eru til neinar fullnægjandi skrár eða heildarupplýsingar um fjölda útlendinga, hvaðan þeir koma, við hvað þeir starfa eða hversu lengi þeir dveljast hér. Ekki er heldur til neitt yfirlit um laun þeirra, réttindi eða aðbúnað. Gögn sýna þó að hluti útlendinganna nýtur ekki launakjara og réttinda í samræmi við lög og kjarasamninga á vinnumarkaði. Einkum eru það starfsmenn sem koma hingað á grundvelli þjónustuviðskipta og í gegnum starfsmannaleigur til lengri eða skemmri tíma, sérstaklega frá Eystrasaltsríkjunum. Talið er að nokkur hundruð starfsmanna tilheyri þessum hópi. Tvíbent er hvort þjónustusamningarnir eru í samræmi við lög og reglur. Oftar en ekki er talið um skúffufyrirtæki að ræða eða fyrirtæki sem eru óskráð í heimalandinu. Grunur leikur á að gjarnan sé um málamyndagerning að ræða af hálfu notkunarfyrirtækjanna og gerður til þess að komast hjá því að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi og skrá starfsmennina með eðlilegum hætti. Talið er að þessir starfsmenn skipti hundruðum og starfi oft á svörtum markaði. Þá leikur grunur á að fjölmargir útlendingar komi til landsins sem ferðamenn og starfi síðan á svörtum markaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×