Innlent

Nýr stjórnarformaður Baugs

Sigrún Þorláksdóttir var kjörin formaður kvenfélagsins Baugs í Grímsey á aðalfundi félagsins sem haldinn var um síðustu helgi. Sigrún er jafnmikill Grímseyingur og hægt er að vera, báðir foreldrar hennar fæddust í eynni og ólust þar upp og sjálf hefur hún búið þar alla sína tíð, utan tveggja ára sem hún varði á Akureyri. "Þetta er öflugasta kvenfélag landsins, allar konurnar í eynni eru félagar, bæði ungar og gamlar og allt þar á milli," segir Sigrún. Þegar blaðamaður nær af henni tali situr hún í stól á hárgreiðslustofu í Kópavogi og er að láta setja í sig nýjar strípur. "Ég þurfti rétt að skreppa hingað suður," segir Sigrún sem líður þó hvergi betur en heima í Grímsey. Starfsemi Baugs í Grímsey er öflug og segir formaðurinn að helst þyrfti að fjölga helgum í árinu svo kvensurnar gætu gert allt sem þær langar til. Framundan eru ýmsar skemmtanir á vegum félagsins, til dæmis hátíðarkaffi um páskana og húllumhæ á sumardaginn fyrsta. "Það er brjálað stuð út allt sumarið og ekki minnkar það þegar veturinn gengur í garð," segir Sigrún og hlakkar til að komast heim á ný enda Hörður Torfa væntanlegur í næstu viku til tónleikahalds. Þess má geta að Kvenfélagið Baugur á ekkert skylt við samnefnt stórfyrirtæki, sem raunar hefur enga starfsemi í Grímsey.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×