Sport

Chelsea úr leik í bikarnum

Chelsea er úr leik í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu en liðið tapaði fyrir Newcastle, 1-0 í 16 liða úrslitum keppninnar nú rétt í þessu. Patrick Kluivert skoraði eina mark leiksins á 4. mínútu. Chelsea lék manni færri nánast allan síðari hálfleik þar sem Wayne Bridge var borinn meiddur af velli í upphafi hálfleiksins. Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea tók áhættu sem borgaði sig ekki þegar eftir á er að hyggja því hann notaði alla varamennina sína þrjá í hálfleik og skipti inn á þeim Eiði Smára Guðjohnsen, Frank Lampard og Damien Duff inn á í stað þeirra Tiago, Geremi og Joe Cole. Markvörður Chelsea, Carlo Cudicini var svo rekinn af velli með rauða spjaldið þegar 2 mínútur voru eftir af 5 mínútna viðbótartíma. Tveir aðrir leikir fóru fram í 16 liða úrslitum keppninnar í dag. Tottenham og Nottm Forest gerðu 1-1 jafntefli og þurfa að mætast að nýju og sömuleiðis Burnley og Blackburn sem gerðu markalaust jafntefli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×