Erlent

Stríðinu er lokið

Bjartsýni ríkir nú fyrir botni Miðjarðarhafs um að friður sé loks í sjónmáli eftir vel heppnaðan fund Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, og Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, í síðustu viku. Ýmis erfið mál eru þó óleyst. Mahmoud Abbas var ómyrkur í máli í viðtali við dagblaðið The New York Times um helgina um stöðu og horfur í samskiptum Ísraelsmanna og Palestínumanna en þeir Ariel Sharon hittust í Sharm el Sheikh í Egyptalandi í liðinni viku. Abbas sagði að stríðinu við Ísraelsmenn væri lokið og gjörbreyting orðin á afstöðu Sharons í garð Palestínumanna. Þetta mætti sjá af áherslu hans á brottflutning landnema frá Gaza og Vesturbakkanum þrátt fyrir mikla andstöðu harðlínumanna. Sharon hefur fyrirskipað aðgerðir gegn ísraelskum öfgamönnum eftir að ráðherrum í ríkisstjórn hans var hótað vegna þessa. Sharon hefur boðað að frumvarp verði lagt fram í næstu viku á ísraelska þinginu um að landnemabyggðir á Gaza verði rýmdar. Palestínumenn munu á næstu vikum taka við stjórn Jeríkó og fjögurra annarra borga á Vesturbakkanum. Abbas kvaðst fagna samstarfsvilja Hamas og Jihad-samtakanna. Algert forgangsmál að hans mati er að palestínskir fangar verði látnir lausir úr ísraelskum fangelsum. 8.000 Palestínumenn eru í haldi Ísraelsmanna og segir Abbas að sakaruppgjöf þeirra sé mælikvarði á friðarvilja Ísraelsmanna. Á sunnudaginn lýstu ísraelsk stjórnvöld því yfir að 500 fangar yrðu senn látnir lausir. Enn á þó eftir að ræða erfið mál á borð við hugsanlega skiptingu Jerúsalemborgar, rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til heimkynna sinna og framtíðarlandamæli Palestínu en um öll þessi mál hefur ríkt verulegur ágreiningur. Samkvæmt svonefndum Vegvísi til friðar er gert ráð fyrir að Palestína verði sjálfstætt ríki áður en landamæri verða endanlega ákveðin. Þessu segist Abbas hins vegar andvígur, skilgreina verði landamærin áður en sjálfstæði verði lýst yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×