Erlent

Rússarnir koma til Bandaríkjanna

Fjöldi rússneskra njósnara í Bandaríkjunum er nú í það minnsta jafn mikill og á tímum Kalda stríðsins, og það þrátt fyrir að Rússland sé minna og máttlausara ríki en gömlu Sovétríkin. Rússarnir koma segir í fyrirsögn fréttatímaritsins TIME sem kemur út í dag og skyldi engan undra. Vitað er um í það minnsta hundrað rússneska njósnara í Bandaríkjunum, en það eru aðeins þeir njósnarar sem starfa eftir hefðbundnum og auðrekjanlegum leiðum, flestir þeirra sem sendifulltrúar í sendiráðum Rússlands. Ekki er langt um liðið síðan Bandaríkjamenn vísuðu fimmtíu rússneskum sendiráðunautum úr landi fyrir njósnir. Enginn þorir hins vegar að giska á fjölda þeirra njósnara sem sigla undir öðru fölsku flaggi, til að mynda sem kaupsýslumenn, blaðamenn og vísindamenn. Þeir eru hugsanlega betur í sveit settir að nálgast mörg þeirra leyndarmála sem Rússar vilja komast yfir, t.d. leyndardóma kjarnorkuvarnakerfisins sem Bandaríkjamenn hafa lagt mikla fjármuni í að þróa. Þeir vilja líka vita hver langtímastefna bandarískra stjórnvalda er gagnvart Rússlandi og helstu nágrönnum: fyrrverandi Sovétlýðveldum, Kína og Miðausturlöndum. Rússar eru einnig sagðir hafa mikinn áhuga á tæknibúnaði sem má nota bæði í iðnaði og öðru af því tagi en einnig í vopnaframleiðslu. Þeir eru sagðir hafa stofnað þúsundir gervifyrirtækja til að kaupa slík gögn, oft í gegnum þriðja ríkið. Eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 breyttust áherslur alríkislögreglunnar FBI, en hún stjórnar njósnaraveiðum innan Bandaríkjanna. Minni áhersla var lögð á slíkt starf, sem var þá álitið veigaminna í ljósi breyttrar heimsmyndar. Athyglin beindist fremur að hryðjuverkamönnum en nú hafa yfirmenn FBI vaknað upp við vondan draum, segir í TIME, og fyrirskipað að gagnnjósnurum verði fjölgað þegar í stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×