Erlent

Abbas og Sharon funda bráðlega

Búist er við því að Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, og Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, fundi innan tveggja vikna. Shaul Mofaz, varnarmálaráðherra Ísraels, og Mohammed Dahlan, yfirmaður öryggismála í Palestínu, hittust síðdegis í gær til að undirbúa fund Abbas og Sharons. Þó að samskipti ísraelskra og palestínskra stjórnvalda séu að batna eru áherslur æðstu yfirmanna um hvaða mál eigi að vera á dagskrá fundarins ólíkar. Ísraelar vilja fyrst og fremst ræða öryggismál. Palestínumenn vilja hins vegar ræða fleiri mál eins og sameiginlega yfirlýsingu um vopnahlé, möguleikann á því að sleppa stórum hluta palestínskra fanga í Ísrael og endurvakningu friðarviðræðna. Nabil Saath, utanríkisráðherra Palestínu, sagði í gær að stjórnvöld væru langt komin með að ná samkomulagi við Hamas og Jihad um vopnahlé. Hann sagði að fulltrúar samtakanna myndu funda með egypskum stjórnvöldum í næstu viku og vonast væri eftir því að samkomulagið yrði innsiglað þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×