Lífið

Segir landann geggjaðan um áramót

Kiefer Sutherland segir Íslendinga lífsglaða og gestrisna en snarbrjálaða þegar flugeldar eru annars vegar. Leikarinn var gestur í þætti Davids Lettermans á Sýn gærkvöld. Sutherland kom hingað til lands skömmu fyrir áramót og skemmti sér að sögn konunglega. Vinur Sutherlands, tónlistarmaður að nafni Rocco de Luco, kom til að skemmta Íslendingum og ákvað leikarinn að skella sér með til að kanna hið fræga næturlíf Reykjavíkur enda ku hann vera skemmtanaglaður með eindæmum. Og Sutherland ber Íslendingum vel söguna. Hann segir þá njóta lífsins og hvergi hafi hann fengið eins góðar móttökur. Flugeldamenning landans kom leikaranum mjög á óvart. Hann segir engin lög gilda um meðferð flugelda og líkir ástandinu um áramótin við stríð. Hver sem er geti keypt flugelda. Sutherland segir enn fremur að Íslendingar eyði um 15 milljónum dala, um 900 milljónum króna, í skotelda aðeins fyrir þetta kvöld. Ekkert skipulag sé á þessu og ekkert eitt svæði þar sem flugeldum sé skotið upp. Fólk þurfi að gæta sín þegar það gangi fyrir horn því rakettur geti þotið hjá hvenær sem er. Hann segist hafa séð sex ára strák rogast með 15 kílóa sprengju og annan sex ára strák fylgja honum eftir með eldspýtu. Þetta hefði verið algjör geggjun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.