Erlent

Vilja auka samstarf í hamfaramálum

Norrænu utanríkisráðherrarnir vilja nánara samstarf á Norðurlöndum þegar brugðist er við náttúruhamförum eins og flóðbylgjunni sem varð í Asíu um jólin. Þetta kom fram eftir fund þeirra í Kaupmannahöfn í gær. Ráðherrarnir eru sammála um aukið samstarf við náttúruhamfarir í framtíðinni. Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, tók á móti starfsbræðrum sínum frá öllum Norðurlöndunum í Kaupmannahöfn, á þessum fyrsta fundi utanríkisráðherranna á formennskuári Dana í Norrænu ráðherranefndinni. Allar Norðurlandaþjóðirnar meta nú þátttöku sína í hjálparstarfi vegna flóðbylgjunnar og ráðherrarnir vilja koma á samstarfi sem tryggi að Danir, Norðmenn, Finnar, Svíar og Íslendingar fái eins góða aðstoð og unnt er að veita eins fljótt og hægt er ef hættuástand skapast. Í norska dagblaðinu Verdens Gang er greint frá því að ráðherrann hafi lagt til að norrænu ríkisstjórnirnar taki gagnrýni sem fram hefur komið á aðgerðir eftir hamfarirnar annan dag jóla til athugunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×