Innlent

Betri og nákvæmari veðurspá í framtíðinni

MYND/Vísir

Ekki er hægt að lofa því að veðrið muni batna á Íslandi í framtíðinni en veðurspáin mun alla vega gera það. Samstarfssamningur við Veðurtunglastofnun Evrópu, sem undirritaður var í dag, gerir að verkum hægt verður að spá fyrir um veður hér á landi með meiri nákvæmni en áður.

Það var Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra og Lars Prahm, forstjóri Veðurtunglastofnunar Evrópu, sem undirrituðu samninginn í Þjóðmenningarhúsinu í morgun. Þau lýstu bæði yfir mikilli ánægju með samninginn og ráðherrann sagði hann marka tímamót í starfsemi Veðurstofu Íslands.

Veðurtunglastofnun Evrópu rekur m.a. fjóra svokallaða „sístöðui" gervihnetti sem fylgja snúningi jarðar og þau svæði sem þeir skanna eru því sívöktuð. Þá mun stofnunin á næstunni hefja rekstur gervitungla sem fara á milli norður- og suðurpóls. Magnús Jónsson, forstjóri Veðurstofu Íslands, segir tæknina sem Veðurstofan fái núna aðgang að hluta af þeirri byltingu sem verði á veðurþjónustu á næstu misserum, og þá sérstaklega skammtímaspár. Þetta þýðir að hin síbreytilega veðrátta hér á landi verður fyrirsjáanlegri hér eftir en samningurinn tekur gildi 1. janúar næstkomandi.

Margir landsmenn velta líklega fyrir sér þessa dagana hvort jólin í ár verði rauð eða hvít. Aðspurður hvort ætli þessi nýja tækni geri að verkum að mögulegt verði jafnvel að spá fyrir um slíkt að sumri til segir Magnús svo ekki vera. Langtímaspáin nái kannski í mesta lagi tíu daga fram í tímann, ekki nokkra mánuði eða ár.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×