Erlent

Naktir Svíar dansandi á Volvobílum

Móðurfyrirtæki Ikea í Svíþjóð hefur skipað útibúum sínum í Þýskalandi að draga til baka auglýsingar sem sýna draugfulla Svía á Jónsmessugleði. Svíar eru saltmóðgaðir yfir þremur auglýsingunum sem hafa verið sýndar á nokkrum stærstu sjónvarpsstöðvum Þýskalands. Í þeim má sjá draugfulla Svía í þjóðbúningum, þamba bjór og heimabrugg á brúsum, dansa hálfnakta á vélarhlífinni á gömlum Volvu og stunda ástarleiki í rjóðrum og runnum með tilheyrandi óhljóðum. Landabrúsunum er óspart veifað og fólk heyrist öskra „meira, meira...!“. Svo hefst mikill matarslagur sem endar með allsherjar slagsmálum. Þetta segja auglýsingarnar vera dæmigerða Jónsmessugleði í Svíþjóð. Tekið er fram að Ikea í Þýskalandi flytji ekki þessa hegðan yfir landamærin heldur aðeins hina „geðveikislega“ lágu Jónsmessuprísa á mublum. Þjóðverjum finnst þessar auglýsingar rosalega fyndnar en sem fyrr segir er Svíum ekki skemmt. Móðurfyrirtækið í Svíþjóð hefur hundskammað útibúið í Þýskalandi og skipað svo fyrir að birtingu þessara auglýsinga skuli hætt þegar í stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×