Erlent

Réttindum samkynhneigðra mótmælt

Nokkur hundruð þúsund manns, undir forystu tuttugu rómversk-kaþólskra biskupa og íhaldssamra andspyrnuleiðtoga, fylltu miðborg Madrídar á laugardag í mótmælum gegn frumvarpi um lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra og réttar þeirra til ættleiðinga. Hálftíma eftir að mótmælin hófust héldu skipuleggjendur því fram að ein og hálf milljón manna hefði verið viðstödd. Fjölmiðlum sem voru á staðnum fannst það heldur óvarlega áætlað og töldu hópinn hafa verið nær því að vera fimmhundruð þúsund manns. Þrátt fyrir þessa miklu þátttöku sýna skoðanakannanir að meirihluti Spánverja styður frumvarpið. Varaforsætisráðherra ríkisstjórnar landsins, Maria Teresa Fernandez de la Vega, varði lögin og sakaði mótmælendur um fordóma. "Nýju lögin skylda engan til að gera eitthvað sem hann vill ekki gera," sagði hún og bætti við að andstæðingar samkynhneigðra vildu neita öðrum um réttindi sem þeir hefðu sjálfir. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum innan nokkurra vikna. Þegar er búið að samþykkja það í neðri deild þingsins og kosið verður um það í næstu viku í efri deildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×