Innlent

Sigur fyrir réttarkerfið í landinu

Valgerður Bjarnadóttir segir niðurstöðuna sigur fyrir réttarkerfið í landinu.
Valgerður Bjarnadóttir segir niðurstöðuna sigur fyrir réttarkerfið í landinu.

"Þetta er ekki aðeins sigur fyrir mig heldur er þetta sigur fyrir réttarkerfið í landinu vegna þess að þetta er fordæmisgefandi dómur," segir Valgerður H. Bjarnadóttir. Hæstiréttur dæmdi í gær að íslenska ríkinu bæri að greiða Valgerði sex milljjónir króna í bætur fyrir að Árni Magnússon félagsmálaráðherra skyldi hafa lagt að henni að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.

Á sama tíma og Valgerður gegndi starfi framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu var hún einnig stjórnarformaður Leikfélags Akureyrar. Hún hafði tekið þátt í ráðningu leikhússtjóra Leikfélagsins en sú ráðning var talin brjóta í bága við jafnréttislög. Í þessu ljósi lýsti ráðherrann því yfir að Valgerður nyti ekki lengur trausts sem starfsmaður Jafnréttisstofu og fór fram á að hún léti af störfum. Seinna komst Hæstiréttur að því að ráðning leikhússtjórans hefði ekki brotið í bága við lög. Valgerður krafði því íslenska ríkið um bætur í ljósi þess að hafa verið látin hætta störfum án tilefnis. Rétturinn segir aðferð Árna við úrlausn málsins brjóta í bága við lagaákvæði um meðalhóf við töku stjórnvaldsákvörðunar. "Ég dreg ekki dul á að þessi niðurstaða hæstaréttar veldur mér vonbrigðum," segir Árni Magnússon í yfirlýsingu. Hann fagnar því að málinu sé lokið og óskar Valgerði velfarnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×