Erlent

Jafnaðarmenn sigurvegarar

Bjerregaard á Kjörstað. Þrátt fyrir skrautlega fortíð nýtur Ritt Bjerregaard umtalsverðra vinsælda hjá Kaupmannahafnarbúum.
Bjerregaard á Kjörstað. Þrátt fyrir skrautlega fortíð nýtur Ritt Bjerregaard umtalsverðra vinsælda hjá Kaupmannahafnarbúum.

Jafnaðarmenn komust í lykilstöðu í þremur af fjórum stærstu borgunum í Danmörku í sveitarstjórnarkosningunum í fyrradag. Í höfuðborginni fengu jafnaðar­menn um 35 prósent atkvæða og er fastlega búist við að þeir myndi meirihluta með sósíalistum og Radikale Venstre. Ritt ­Bjerre­gaard­ verður næsti borgarstjóri, fyrst kvenna sem gegnir því starfi.

Jafnaðarmenn töpuðu hins vegar völdum í Óðinsvéum en þar höfðu þeir setið á borgarstjórastóli í 68 ár. Forystumaður þeirra, Anker Boye, bauð Radikale Venstre borgarstjórastólinn ef þeir mynduðu meirihluta með þeim en allt kom fyrir ekki.

Jafnaðarmenn eru ótvíræðir sigurvegarar kosninganna en fylgi þeirra jókst um tvö prósent yfir landið. Radikale Venstre eykur jafnframt fylgi sitt umtalsvert.

Íhaldsflokkurinn tapar hins vegar fylgi sem nemur einu prósenti og Venstre, flokkur Anders Fogh Rasmus­sen forsætisráðherra, dalaði líka. Kosið var til 98 sveitarstjórna og í fimm héraðsstjórnir.

Ríflega fjórar milljónir manna voru á kjörskrá og greiddu um 70 prósent þeirra atkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×