Erlent

Austur-Þjóðverji í formannsstólinn

Tekur við stýrinu. Matthias Platzeck sest undir stýri á rækilega merktum Trabant á flokksþingi SPD í Karlsruhe.
Tekur við stýrinu. Matthias Platzeck sest undir stýri á rækilega merktum Trabant á flokksþingi SPD í Karlsruhe.

Matthias Platzeck, forsætisráðherra (fylkisstjóri) austur-þýska sambandslandsins Brandenborgar, var nær einróma kjörinn nýr formaður þýska Jafnaðarmannaflokksins, SPD, á flokksþingi á þriðjudag. Þar með eru Austur-Þjóðverjar komnir í formannsstól beggja stóru flokkanna í þýskum stjórn­málum, en þeir eru nú að hefja stjórnarsamstarf í annað sinn í sögu þýska sambandslýðveldisins.

Platzeck fékk atkvæði 512 þingfulltrúa, tveir greiddu atkvæði gegn honum og einn sat hjá. Ég mun gera allt til að endurgjalda þessa gríðarmiklu traustsyfirlýsingu, sagði Platzeck í þakkarræðu sinni.

Platzeck er 51 árs náttúru­fræðingur sem ólst upp í austur-þýska alþýðulýðveldinu, en þann bakgrunn á hann sameiginlegan með Angelu Merkel, formanni Kristilegra demókrata og verðandi kanslara. Hann tekur við flokksformennskunni af Franz Müntefering, sem óvænt gaf ekki kost á sér lengur í embættið.

Platzeck verður áfram forsætisráðherra Brandenborgar en Müntefering verður varakanslari í sambandsríkisstjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×