Erlent

Ísraelar voru varaðir við árásunum

Jórdönsk kona veifar þjóðfánanum og mynd af Abdullah konungi í friðargöngu sem haldin var í Amman í gær. Vika er liðin frá tilræðunum mannskæðu.
Jórdönsk kona veifar þjóðfánanum og mynd af Abdullah konungi í friðargöngu sem haldin var í Amman í gær. Vika er liðin frá tilræðunum mannskæðu.

Hópi Ísraela sem dvaldi á Radisson SAS hótelinu í Amman, höfuðborg Jórdaníu, virðist hafa verið forðað út af hótelinu skömmu áður en sprengja sprakk þar fyrir viku. Alls létust 57 manns í árásum á þrjú hótel í borginni að kvöldi 9. nóvember.

Þetta kom fram í ísraelska blaðinu Haaretz á dögunum en af einhverjum ástæðum var fréttin dregin til baka nokkru síðar. Samkvæmt fréttinni barst hópnum aðvörun frá jórdönskum leyniþjónustumönnum og var mönnunum fylgt yfir landamærin til Ísraels.

Amos N. Guiora, fyrrverandi yfirmaður hryðjuverkavarna í Ísrael, staðfesti fregn Haaretz í samtali við blaðamann Los Angeles Times. "Þetta þýðir að mjög áreiðanlegar vísbendingar hafa legið fyrir um hvað var í aðsigi. Nú þarf hins vegar að svara ­­þeirri­­ spurningu hvers vegna aðrir sem voru í byggingunni voru ekki aðvaraðir líka."

Adnan Badran, forsætisráðherra Jórdaníu, greindi frá því í gær að kona sem sökuð er um að hafa átt aðild að tilræðunum hafi ekki verið handtekin í Amman heldur í bænum Salt í norðausturhluta landsins en þar hafði hún leitað ásjár ættingja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×