Innlent

Komast óheftir um Alþingishúsið

Fatlaðir geta nú í fyrsta sinn komist óheftir um Alþingishúsið. Lyfta var tekin þar í notkun í dag sem kemur fólki í hjólastól alla leið upp á þingpalla. Forseti Alþingis kynnti gestum í dag þær umfangsmiklu endurbætur sem staðið hafa yfir á þinghúsinu undanfarin þrjú ár. Mesta ahygli vekur að búið er að stórbæta aðgengi fatlaðra en Halldór Blöndal, forseti Alþingis, bauð Guðmundi Magnússyni, formanni ferlinefndar Öryrkjabandalagsins og Sjálfsbjargar, að taka út verkið. Þar þurfti að prófa hvort hjólastóllinn kæmist yfir þröskulda og reyndist það létt enda höfðu þeir verið lækkaðir. En stóra breytingin er lyftan en í gegnum tíðina hefur það reynst hreyfihömluðum torvelt að komast á milli hæða í gamla húsinu. Guðmundur kvaðst mjög ánægður með breytingarnar og segir hafa tekist að halda húsinu eins og það hafi verið hvað varðar stíl og fegurð um leið og það var gert þannig að það standist þær kröfur sem gerðar séu til húsa í dag. Og Guðmundur segir að fatlaðir hlakki til að mótmæla meira en áður með þessum breytingum á pöllum hússins, enda sé það nú auðveldara. Þetta eru mestu viðgerðir sem gerðar hafa verið á Alþingishúsinu frá því það var byggt árið 1881. Kostnaður nemur 285 milljónum króna en eftir er að gera við þakið og loftræstikerfi. Halldór Blöndal segir að honum finnist markverðast að hægt sé að færa húsið í upprunalegt horf og um leið gert það að betri vinnustað.  Og það er ekki á hverjum degi sem fólki gefst tækifæri til að skoða þetta fagra og sögufræga hús. Slíkt býðst á morgun, laugardag, milli klukkan tíu og þrjú. Inngangur verður við aðaldyr nýja hússins, Skálans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×