Innlent

Íbúar ráði sjálfir uppbyggingu

Sigurður Jónsson bæjarstjóri Garðs segir að bæjarstjórnin hafi allt frá byrjun verið nánast einróma þeirrar skoðunar að leggjast gegn sameiningu sveitarfélagsins við Sandgerði og Reykjanesbæ. "Það hefur verið bent á mikla uppbyggingu hér og líklegra til að halda þeirri þróun áfram sé að íbúar hér geti valið beint sína fulltrúa til að stjórna." Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar hefur bent á að í nýrri skýrslu sérfræðinga á vegum sameiningarnefndar Suðurnesjamanna sé sameining Garðs, Sandgerðis og Reykjanesbæjar talin skynsamlegur kostur. "Þetta þykir mér mjög merkilegt miðað við að meirihluti nefndarmanna var fyrirfram á móti sameiningu," sagði Árni í samtali við Fréttablaðið á fimmtudag. Reynir Sveinsson bæjarfulltrúi í Sandgerði og formaður sameiningarnefndarinnar segir andstöðu meirihlutan bæjarstjórnar Sandgerðis við sameiningu liggja fyrir og skýrslur breyti þar engu um. "Það er félagsmálaráðuneytið sem skikkar okkur til að fara út í kosningar um málið," sagði Reynir sem ranglega var tiltlaður bæjarstjóri Sandgerðis í Fréttablaðinu í gær. Beðist er velvirðingar á því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×