Erlent

Aðildarviðræðum við Rúmena slitið?

MYND/AP

Aðild Rúmena að Evrópusambandinu er í hættu ef rétt reynist að þeir hafi hýst leynifangelsi fyrir bandarísku leyniþjónustuna.

Það eru einkum Pólland og Rúmenía sem liggja undir grun og í báðum löndum er hafin opinber rannsókn á réttmæti fréttar Washington Post, þar sem því var haldið fram að bandaríska leyniþjónustan CIA hefði rekið leynifangelsi í löndunum.

Ef satt reynist gætu Pólverjar misst atkvæðisrétt sinn í ráðherraráði Evrópusambandsins. Franco Frattini, yfirmaður dóms- og öryggismála innan framkvæmdastjórnar sambandsins sagðist í gær ætla að leggja til að öll lönd innan ESB sem hefðu hýst slík fangelsi myndu missa atkvæðisrétt.

En þó að það þætti hörð refsing að missa atkvæðisrétt í ráðherraráðinu, gæti Rúmena beðið enn harðari refsing.

Aðildarviðræður þeirra eru nánast yfirstaðnar og að öllu óbreyttu ættu þeir að ganga í Evrópusambandið árið 2007. Nú hafa hins vegar nokkrir þingmenn Evrópusambandsins lagt til að aðildarviðræðum við Rúmena verði hreinlega slitið ef rétt reynist að leynifangelsi hafi verið hýst í landinu. Færi svo, yrði það gífurlegt áfall fyrir landið, sem hefur árum saman unnið að því að fá inngöngu í sambandið og komast þannig að kjötkötlunum og fá styrki frá ríkari þjóðum sambandsins.

Bandaríkjamenn sjálfir eru enn þöglir sem gröfin varðandi málið, þrátt fyrir vaxandi þrýsting frá Evrópu. Síðast í gær sagði Condoleeza Rice, utanríkisráðherra að þeir þyrftu lengri tíma til að rannsaka málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×