Erlent

Hundruð flugferða falla niður

Tugþúsundir farþega British Airways eru strandaglópar vegna skyndiverkfalla á Heathrow-flugvelli. Félagið hefur þurft að fella niður hundruð flugferða fyrir vikið.  Ástæðan þessara vandræða var skyndilegt samúðarverkfall um eitt þúsund flugvallarstarfsmanna sem mótmæltu uppsgögnum starfsmanna hjá Gate Gourmet, alþjóðlegu fyrirtæki sem sér meðal annars um flugvélamat hjá British Airways. British Airways flýgur um 550 ferðir til og frá Heathrow á degi hverjum og ferðast yfir eitt hundrað þúsund farþegar með vélum félagsins. Mikið umstang var við að koma strandaglópum fyrir á hótelum í London í nótt og segja talsmenn félagsins að það hafi tapað gríðarlegum upphæðum á aðgerðum starfsmanna. Ástandið var ekki betra í morgun og ljóst að ekkert flug verður frá Heathrow á vegum British Airways fyrr en í fyrsta lagi eftir klukkan fimm í dag. Málið er álitshnekkir fyrir flugfélagið sem hefur áður lent í vandræðum vegna skyndiverkfalla starfsfólks. Markaðssérfræðingar segja orðspor félagsins skaðast verulega og að farþegar hljóti að velta fyrir sér hvers vegna starfsfólk British Airways fari í verkfall vegna uppsagna fólks hjá allt öðru fyrirtæki. Slíkt sé til þess fallið að draga úr trausti farþega á félaginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×