Erlent

Flugvöllurinn lamaðist

Ófremdarástand skapaðist á Heathrow-flugvelli í Lundúnum í gær og í fyrrakvöld þegar flugvallarstarfsmenn fóru í skyndilegt samúðarverkfall. Tugþúsundir farþega komust hvorki lönd né strönd. Yfir þúsund starfsmenn British Airways á Heathrow ákváðu að leggja niður störf á fimmtudagskvöld eftir að 800 starfsmönnum Gate Gourmet veitingaþjónustunnar var sagt upp í sparnaðarskyni, en þeir eru í sama verkalýðsfélagi. Í kjölfarið varð British Airways að aflýsa öllum ferðum til og frá flugvellinum næsta sólarhringinn, svo og flugfélögin Quantas, Finnair, British Mediterranean og Sri Lankan Airlines sem öll kaupa þjónustu af British Airways. Farþegar Icelandair lentu hins vegar ekki í vandræðum þar sem aðrir annast vélar þeirra og farþega. Fella þurfti niður 550 ferðir frá flugvellinum í gær og voru 70.000 manns strandaglópar víða um heim af völdum verkfallsins. Talið er að British Airways hafi tapað 1,15 milljarði króna vegna þess. Um það bil þúsund farþegar urðu að eyða aðfaranótt föstudagsins á Heathrow og þeir voru að vonum afar óhressir með það. "Ég er of kurteis kona til að færa í orð hvað mér finnst um British Airways," sagði Daphne Morley, frá Ástralíu, en hún hafði ætlað að ná tengiflugi í Lundúnum til Pétursborgar í Rússlandi. "Farangurinn okkar er einhvers staðar í buskanum, við getum ekki einu sinni skipt um föt." Síðdegis í gær sneru starfsmennirnir svo aftur til sinna starfa og um kvöldmatarleytið tóku svo fyrstu flugvélarnar að fara í loftið frá flugvellinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×