Erlent

Skýringa frá stjórnvöldum krafist

Tugþúsundir Íraka mættu við útfarir þeirra sem dóu í öngþveitinu í Bagdad í fyrradag. Gagnrýni fer nú vaxandi á ríkisstjórnina fyrir að hafa mistekist að koma í veg fyrir harmleikinn. Trúarganga sjía í Bagdad í fyrradag leystist upp í skelfilegt öngþveit þegar sá kvittur komst á kreik að sjálfsmorðssprengjuárásarmaður væri í hópi fólks sem gekk yfir eina af brúunum yfir Tígris. Mörg hundruð pílagríma tróðust undir og fjölmargir drukknuðu í fljótinu. Íraska innanríkisráðuneytið lýsti því yfir í gær að 953 hefðu farist og 815 slasast í öngþveitinu. Heilbrigðisráðuneytið segir hins vegar að 839 hafi týnt lífi. Þessi munur hefur ekki verið skýrður. "Þessar hörmungar eru afleiðing af vanrækslu innanríkis- og varnarmálaráðherra," sagði Baha al-Aaraji, þingmaður sjía, sem er hliðhollur eldklerksins Muqtada al-Sadr. "Þá á að draga fyrir þingnefnd og komi í ljós að þeir hafi brugðist skyldum sínum eiga þeir að svara til saka." Jalal Talabani, forseti Íraks, hvatti sömuleiðis til þess að óháð rannsókn á harmleiknum færi fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×