Lífið

Cocker í Laugardalshöll í haust

Breski rokksöngvarinn Joe Cocker heldur tónleika í Laugardalshöll þann 1. september næstkomandi. Það er tónleikahaldarinn Einar Bárðarson sem hefur veg og vanda af tónleikum Cockers. Einar sagði í samtali við fréttastofu Bylgjunnar í morgun að samningar hefðu náðst við söngvarann í vikunni og að heimsókn hans hingað til lands væri hluti af tónleikaferð hans um Evrópu. Cocker varð sextugur í fyrra. Hann er frá Sheffield í Englandi og hefur um áratugaskeið verið einn þekktasti rokksöngvari heims. Hann sló eftirminnilega í gegn á Woodstock-hátíðinni árið 1969 með Bítlalaginu With a Little Help from My Friends. Sviðsframkoma hans hefur ætíð vakið mikla athygli en líkamsburðir hans á sviði minna einna helst á mann sem kreistir öddina upp úr barkanum á sér með því að fetta sig og bretta. Einar segir að Cocker komi hingað með 17 manna fylgdarlið og flytji alla helstu gullmola ferilsins á sviði Laugardalshallarinnar. Hann segir miðasölu hefjast síðar í þessum mánuði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.