Innlent

Áhugi á tungumálum minnkar eilítið

Áhugi grunn- og framhaldsskólanema á erlendum tungumálum virðist hafa minnkað ef marka má nýjar tölur sem Hagstofa Íslands birtir á degi tungumála í Evrópu, sem er í dag. Þar kemur fram að skólaárið 2003-2004 lögðu 73,9 prósent nemenda á framhaldsskóla stund á nám í einhverju erlendu tungumáli en ári síðar hafði hlutfallið lækkað í 73,0 prósent. Frá árinu 1999 hefur nemendum sem læra erlend tungumál fækkað um 2,8 prósentustig. Flestir framhaldsskólanemar leggja stund á ensku, næstflestir dönsku og þýska er þriðja algengasta erlenda tungumálið í framhaldsskólum. Þýsku- og frönskunemum í framhaldsskólum hefur fækkað hlutfallslega frá árinu 1999 en spænska hefur á síðustu árum sótt í sig veðrið og numu tæp ellefu prósent framhaldsskólanema spænsku á síðasta ári, litlu færri en lærðu frönsku. Eftir breytingar á aðalnámskrá grunnskóla árið 1999 er enska fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum og jafnframt það mál sem flestir grunnskólanemendur læra. Flestir grunnskólanemar hefja enskunám í 5. bekk og dönskunám í 7. bekk. Enskunemum hefur fjölgað ár frá ári í grunnskólum og sama má segja um dönskunema. Nemendum í sænsku fer fækkandi en norskunemum fjölgandi séu bornar saman tölur síðustu ára. Í nokkrum skólum hefst kennsla í erlendum tungumálum fyrr en kveðið er á í aðalnámsskrá. Skólaárið 2004-2005 lærðu rúmlega fimm hundruð nemendur í 1.-3. bekk ensku í grunnskólum landsins og 435 nemendur í 4. bekk, tvöfalt fleiri en árið áður. Þá kemur einnig fram í gögnum Hagstofunnar að grunnskólanemendum sem velja þriðja málið, þ.e. fyrir utan ensku og dönsku, hafi fækkað á undanförnum árum, en þar velja flestir þýsku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×