Erlent

Tekist á um stjórnarskrá

Borgarastríð blasir við þvingi Sjítar og Kúrdar sína útgáfu af írakskri stjórnarskrá í gegnum þingið, þvert á vilja Súnníta. Stjórnarskráin átti að vera tilbúin fyrir viku en þá var ákveðið að framlengja frestinn um viku þar sem samkomulag lá ekki fyrir. Í dag hafði staðan lítið breyst, deilt var um lykilatriði meðan árásirnar héldu áfram fyrir utan örugga múra græna svæðisins í Bagdad. Síðdegis náðu þó Sjítar og Kúrdar samkomulagi um skjal sem þeir hyggjast leggja fram sem stjórnarskráruppkast og fá samþykkt, enda mynda þeir meirihluta. Súnnítar eru alls ekki sáttir við þetta, hóta því að fá drögin felld og segja borgarastyrjöld blasa við að öðrum kosti. Það sem stendur helst í súnnítunum er að Írak verður sambandsríki samkvæmt stjórnarskrárdrögunum og mikilvæg héruð í suðri og norðri í raun á valdi sjíta annars vegar og Kúrda hins vegar. Á þessum svæðum er að finna mikilvægustu olíulindir Íraks. Súnnítarnir segja drögin innihalda allt það sem valdið hefur vandræðum í sögu Íraks: kynþáttahyggju, sértrúarstefnu og aðskilnað. Samkvæmt þeim mörkum sem írakska þingið hefur sett sér verður að ljúka vinnu við stjórnarskrána fyrir miðnætti, eftir rúman klukkutíma, annars blasir við sundrung. Hugsanlega yrði að leysa upp þingið og boða til kosninga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×